ADHD

Ég var greind með ADHD (athyglisbrest með ofvirkni) í desember 2004. Upphaflega fór ég til Sálfræðingsins vegna þess hversu þunglynd ég var búin að vera frá því að ég átti barnið, þyngdist um 10 kg á aðeins rétt rúmum mánuði og leið virkilega illa. Ég byrjaði í lok september að hitta sálfræðingin og eftir að hafa farið yfir alla æskuna og sitthvað meira þá ákvað sálinn að leggja fyrir mig próf, og það var ekki eitt próf og ekki tvö. Mamma þurfti að taka próf líka. Útúr þessu kom að ég er semsagt með ADHD og með kvatvísi, sem skýrir margt í hegðun minni gegnum árin hehe...

Það er mikill léttir fyrir mig að vera komin með skýringu á þessu, það var alltaf talað um hvað ég var óþekk og mikil fyrirferð í mér. Ég átti líka til að vera gleymin og einhverjir myndu kalla þetta leti líka. Mér gekk illa í skóla og í rauninni lærði ég bara það sem ég hafði áhuga á, og féll í hinu. Athyglisbresturinn versnaði til muna eftir að ég átti barnið og segja þau bæði sálfræðingurinn og geðlæknirinn að það sé eðlilegt að það gerist þegar ég þarf að fara að hugsa um fleiri en bara mig sjálfa.

Við erum að tala um það að ég átti erfitt með að halda athygli í samtölum við fólk, erfitt að muna eftir að gera hluti, og erfitt með að einbeita mér að einum hlut í einu. Lýsir sér eiginlega best hvernig ég tók til, byrjaði kannski í stofunni og fann þar eitthvað sem átti heima í barna herbergi, þá byrjaði ég að taka til þar og þar var annað sem átti heima í eldhúsinu og þá var ég byrjuð þar ofl. Semsagt mér varð aldrei neitt úr verki.

Hverjum hefur ekki fundist ég ekki vera að hlusta þegar það er verið að tala við mig, ég varð líka oft vör við að ég svaraði bara þó ég hafði ekki hugmynd um hvað manneskjan var að segja við mig. Örugglega pirrað marga. Kom líka fram í því að ég átti til að grípa framm í fyrir fólki en það gerðist bara því ég var ekkert að hlusta :(

Ég var útskrifuð hjá sálanum 17. desember 2004 og strax kvatti hún mig til að fara til læknis og fá lyf við þessu. Þrjóskan í mér sagði mér að gera það ekki og reyna bara að vera meðvituð um þetta. Það gekk svosem alveg... eða þangað til ég fór í skóla núna í haust. Þá átti ég orðið virkilega erfitt með að fylgjast með og fara eftir réttum skipunum og leiðbeiningum. Ég fór aftur að forðast fólk vegna þess hversu það var erfitt að halda samræðum við fólk.

Í byrjun desember fékk ég svo loksins tíma hjá Grétari og hann fór yfir skýrsluna með mér og við komumst að niðurstöðu að ég myndi prófa lyf sem heitir concerta. En það var einn galli, það varð að sækja um lyfjaskírteini fyrir mig svo ég gæti fengið lyfið en þar sem ég var gráti nær af hræðslu við að falla í skólanum þá hringdi hann í apótekið og ég fékk að taka út lyfin mín. Ég get ekki lýst því hvað þetta er mikil breyting fyrir mig í dag. Fyrsta daginn sem ég tók lyfið mitt þá settist ég virkilega uppí rúm og ég las hálfa skáldsögu, eitthvað sem ég hef ekki getað gert í mörg ár. Kláraði hana svo daginn eftir hehehe... Mér tókst að skipuleggja mig vel fyrir prófin og lærði vel fyrir þau enda er ég stolt af sjálfri mér að hafa náð 8 í meðaleinkunn þessa önnina.

Langar til þess að kvetja þig, ef þú hefur grun um eða veist að þú ert með ADHD að leita þér hjálpar, ekki reyna að gera þetta hjálparlaus, það er of erfitt. Þetta er bilting fyrir mig í dag og ég hlakka til að takast á við þetta áfram.

Á heima síðua ADHD samtakana www.adhd.is er hægt að sækja mikið af upplýsingum og á síðunni www.persona.is er hægt að taka próf til viðmiðunar en það er ekki algjörlega til að taka mark á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband